Ég vaknaði geðvond í morgun. Ekki af neinni sérstakri ástæðu. Mig dreymir dada hasarmyndir á hverri nóttu og hef oft velt því fyrir mér hvort maður geti ekki verið þreyttur á daginn hef maður hefur verið úti um allar jarðir í draumalandi. En sumsé, mér fannst dagurinn vera orðinn ónýtur og hann hélt áfram að ónýtast með geðvonskusmjöri ofan á. Hafði verið með háleit markmið um pródúktífan vinnudag, allt átti að vera búið og gert fyrir klukkan x, sem svo stóðst ekki og dagurinn var þar með orðinn enn ónýtari en þegar hann byrjaði. Svo fór ég á kaffihús. Drakk fjórfaldan svartan með hressandi spjalli við Steinunni og hélt svo skjálfandi af ofneyslu koffíns út í löngu ónýta daginn minn. Mín beið þrennt, þ.e. að fá mér bókasafnsskírteini í Staatsbibliothek, finna mér bækur þar til að nota við verkefnavinnu og breyta flugbókun. Biðröðin var löng í StaBi, það var verið að þjálfa nýjan starfsmann. Tafir fara ekki vel í Þjóðverjann og það var svona hálf ergelsislegt andrúmsloft í röðinni. Ég veit ekki hvað kom yfir mig, en ég, sem var búin að ónýta heilan dag með geðvonsku í morgunsárið, ákvað að toga munnvikin aftur í hnakka. Smælaði framan í heiminn, starfsmanninn sem kunni ekki á neitt í nýju vinnunni sinni, jafnvel þegar ég komst að því að það eru bara engar bækur til á bókasöfnunum í Hamborg um efnið sem ég ætla að halda fyrirlestur um eftir ískyggilega stuttan tíma, gekk ég smælandi út í restina af ónýta deginum. Keypti ódýrustu pumpuna í hjólabúðinni sem virtist vera ónýt eins og dagurinn.

En þá var komið að alvöru lífsins, að breyta flugbókuninni. Mér tókst einhvern veginn að koma öllu vitlaust út úr mér svo aumingja þjónustufulltrúinn misskildi það sem ég meinti eða skildi það sem ég sagði… en hvað sem raunverulega gerðist í símtalinu, þá sat ég sat uppi með vitlausa flugbókun sem brátt yrði bókuð af kortinu mínu. Ég velti fyrir mér möguleikunum í stöðunni. Ég gæti orðið geðvond aftur, jafnvel haldið því áfram í marga daga ef ekki alla ævi. Eða reynt að gleyma þessu, borga bara brúsann, sitja uppi með vitleysuna og skrópa í skólanum nokkra daga eftir jól. En ég ákvað að smæla, hringja aftur og spyrja þjónustufulltrúann í fullri vinsemd hvort hægt væri að beyta þessu aftur, ég hefði meint annað en það sem stæði á miðanum. Mér fannst á viðbrögðum hennar að hún byggist við því að ég yrði reið. Sagði að hún hefði skilið málin svona, hefði ekki getað lesið hugsanir mínar út úr því sem ég hafði sagt og það væri líklega ekki hægt að bjarga þessu án þess að þurfa að borga breytingagjaldið aftur. Ég smælaði í símann, ítrekaði að ég væri ekki að hringja til að kvarta eða skammast, ég gerði mér grein fyrir því að ég hefði greinilega ekki komið erindinu nógu skýrt frá mér, en hafi samt ákveðið að hringja aftur og spyrja bara sisvona hvort eitthvað væri hægt að gera. Ef það væri ekki hægt, þá væri það bara allt í lagi. Eftir að hafa hlustað á skrýtna tónlist í símanum í nokkrar mínútur kom hún aftur í símann. Ég þakkaði henni fyrir góða þjónustu og lofaði að tala skýrt í framtíðinni. Hún hló. Og heimurinn smælaði framan í mig.

Read More

Hvað eiga Samskip, Eimskip og Icelandair Cargo sameiginlegt?

-Þau rukka öll á bilinu 70-80 þúsund íslenskar nýkrónur fyrir að flytja eitt stykki rafmagnspíanó í þartilgerðri tösku frá Reykjavíkurhöfn til Hamborgarhafnar.

Read More

Það er skemmst frá því að segja að ég datt alfarið út úr þjóðmálaumræðunni heima þegar ég steig fæti á þýska grund. Einstöku sinnum renni ég yfir einhverjar greinar sem fólk póstar á fésbókinni og misskil flest sem í þeim stendur. T.d. hélt ég þegar ég las eitthvað blogg um ráðningu yfirstjóra bankasýslu ríkisins að um væri að ræða Pál Magnússon útvarpsstjóra. Mér fannst málið ekki nærri því jafn fyndið þegar ég komst að því hvernig raunverulega var í pottinn búið, ég veit ekkert hver þessi hinn Páll Magnússon er. Svo fylgist ég heldur ekkert með þjóðmálunum hér og ó, hvílíkt frelsi. Ég er alein í sápukúlunni minni og hér ætla ég að vera eins lengi og mig lystir.

Hér hef ég allt nema Davíð. Frábært fólk, tónleika, alla heimsins osta og fyrirmyndar sorpflokkunarkerfi. Þegar ég fer út með flokkaða sorpið mitt hugsa ég hvað Ísland gæti verið frábært land. Hér fer maður t.d. með tómar flöskur út í búð (þarf hvorki að flokka né telja), fær strax strikamerktan miða með inneign sem maður afhendir á kassanum og gengur svo upp í innkaupin sem maður gerir þann daginn. Flokkunargámarnir eru úti á plani hjá mér. Þeir eru læstir og húslyklarnir mínir ganga að þeim. Veit ek ó að endurvinnsla er bara dropi í hafi. Lykillinn er vissulega að draga úr neyslu, að nýta, fullnýta og endurnýta.

Maður hefur nákvæmlega ekkert við bíl að gera hérna því almenningssamgöngurnar eru fullkomnar, ganga allar nætur út um allt og eru alltaf á áætlun. Yfir blánóttina eru þær ýmist á 20 og 30 mínútna fresti, annars ýmist á 10 og 5 mínútna fresti. Á Íslandi eru almenningssamgöngur á virkum dögum álíka oft gangandi og þær eru í Hamborg á nóttunni um helgar. Maður borgar að vísu alveg fyrir þessa þjónustu, en samt langt frá því sem kostnaðurinn væri við að reka bíl. En þannig er það líka heima. Þótt Strætó myndi tvöfalda gjaldskrána, væri kostnaðurinn samt langt frá því sambærilegur við að reka bíl. En við viljum ekki borga í strætó. Ég hef oft velt þessu fyrir mér, auðvitað væri til lengri tíma litið ýmis sparnaður fólginn í því að hafa ókeypis í strætó ef fólk nýtti sér það. Minni slit á vegum og minna um eyðingu ósonlagsins… eða æ, já, nei, það er komið gat á ósonlagið yfir Íslandi, við erum búin að eyða því. En ég fór á fyrirlestur um hnatthlýnun um daginn og eftir það er mér eiginlega skítsama hvað hlutirnir kosta. Fyrirlesarinn skellti nefnilega fram þessu dásamlega gullkorni þegar einhver varpaði fram athugasemdum um hvað það væri óhollt fyrir efnahaginn í heiminum að draga úr neyslu almennings:

Náttúrunni er skítsama um efnahagsmál.

Við þurfum að rífa okkur upp á rassgatinu og draga úr neyslubrjálæðinu ef við ætlum að búa á þessari plánetu, sama hvað það kostar, sama hvað hjól atvinnulífsins, þjóðarskútan og hagvöxturinn hefur um það að segja. Sósorrý. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju fólk fæst ekki til að hlusta á vísindamenn sem sitja og reikna og rannsaka daginn út og inn. En um leið og hagfræðingur eða viðskiptafræðingur opnar á sér þverrifuna og byrjar að blaðra um pénínga heldur enginn vatninu, þrátt fyrir að viðkomandi sé greinilega á mála hjá stjórnmálaflokkum eða stórfyrirtækjum. Og þess vegna er mér formlega orðið skítsama um þjóðmálin.

Þegar allt kemur til alls er bara fernt sem skiptir máli í heiminum: Gott fólk, sköpun, umhverfismál og ostar. Og kannski kaffi.

 

Read More

 

Og svona lítur haustmorguninn út um eldhúsgluggann minn.

Eins og ég hef áður minnst á, þá er ég voðalega hamingjusöm í skólanum, en það virðast ekki allir jafn hressir með lífið og tilveruna. Þegar ég ætlaði í sakleysi mínu á postulínið í gær, hafði auglýsingum frá Sinfóníhljómsveit Bæjaralands verið haganlega komið fyrir á kafi ofan í skálinni. Kannski píanóleikarinn sem eyðilagði flyglana og statífin hafi verið hafnað eftir prufuspil. Ég fer að verða forvitin um þennan einstakling. Mér skildist að vísu að sá hefði verið karlkyns, en auglýsingin var ofan í kvennaklósetti.

Read More

 

 

Sólarlagið á svölunum á 10. hæð Svona er sólarlagið mitt. En nú er morgunn. Ég á náttfötunum með fjórfaldan espresso mér á hægri hönd og nokkurn vegin búin að koma mér fyrir hérna á 10. hæðinni. Alveg að verða búin að læra stundatöfluna utan að og vantar bara píanó og hjól af veraldlegum eigum upp á fullkomið heimilishald. Icelandair Cargo tekur litlar 70 þúsund íslenskar nýkrónur fyrir að fljúga rafmagnspíanóinu og hjólinu að heiman. Samskip siglir ekki til Hamborgar, en þau hjá Eimskipum taka sér góðan umhugsunarfrest. Við lögðum inn beiðni í vikunni og höfum ekki fengið svar.

Skólinn er mjög flottur. Afslappað andrúmsloft og margir kennarar vilja þúa og nota fornöfn í tímum. Það getur að vísu verið ruglandi, því sumir vilja það ekki og þá þarf maður náttúrulega að muna hver vill hvað. Í grunnskólanum sem ég var í um árið voru allir kennarar alltaf þéraðir. Ég var farin að sjá vissa kosti við það á sínum tíma og fékk tilfelli þegar ég byrjaði í menntaskólanum heima og áttaði mig á því hvað maður hefði sem íslenskt barn og unglingur verið mikill dóni, bæði við kennara og aðra. En í svona námi, þar sem bekkirnir eru svona pínulitlir, allir meira og minna orðnir fullorðnir og að ræða sín hugðarefni er þú formið miklu þægilegra samskiptaform. Aðalkennarinn minn er algjör snillingur og er fremstur í þú-flokknum.

Ég hélt reyndar að um leið og maður væri kominn til útlanda kæmist maður í æfingaherbergjaparadís þar sem alltaf væri nóg af æfingaherbergjum sem væru opin allan sólarhringinn. Það reyndust órar, því hér er slegist um hvern fermetra og legið á honum eins og ormur við gull… og svo lokað á nóttunni. Svo urðu æfingaherbergin fyrir árás brjálaðs píanónema á síðasta ári sem eyðilagði meira og minna alla flyglana og öll statífin í skólanum, þannig að nú þarf að framvísa persónuskilríkjum og fá afhenta lykla í hvert skipti sem maður fer og æfir sig svo allt sé rekjanlegt. Til að forðast þetta æfingaherbergjadrama flúði ég strax á fyrsta degi yfir á bókasafn og pissaði í lítið, krúttlegt horn. Píanólaust horn náttúrulega, en ég lifi í þeirri von að Eimskip sjái aumur á mér áður en vikan rennur sitt skeið.

Það eru fjórir í árgangnum mínum, þrír í klassískum tónsmíðum og einn í djasstónsmíðum. Allra þjóða kvikindi, tvær stelpur og tveir strákar, stelpurnar frá Kóreu og Íslandi, strákarnir frá Indónesíu og Kólumbíu. Svo virðast að meðaltali vera fjórir í hverjum tónsmíða/tónfræðiárgangi á BA stiginu. Mánudagar og föstudagar eru komplexadagar. Á mánudögum erum við í Ravel-og-Stravinsky-stíl hjá kennara sem brosir og hlær allan hringinn allan daginn þótt maður hafi misskilið öll fyrirmæli, en ég er bara alveg hroðalega léleg í að herma eftir stíl… og finnst það kannski ekkert rosalega gaman heldur. Svo er það hljómsveitarstjórn, sem ég hafði hræðst hvað mest, en hún reyndist ekki eins mikið skrímsli og ég bjóst við. Ég á samt voðalega erfitt með það þegar einhver sér mig og þarna gengur tíminn út á að glápa hver á annann. Á föstudögum er það svo Kunst der Fuge hjá kennara sem hatar fúnksjónal hljómfræði og sýnir andúð sína með miklum leikrænum tilburðum ef einhver tjáir sig um of með hugtökum úr þeim ranni. Í báðum þessum kúrsum er gert ráð fyrir að maður hafi tekið fimm kúrsa í kontrapunkti og álíka marga í tölusettum bassa. Ég hef tekið tvo kúrsa í kontrapunkti og engann í tölusettum bassa og reyni því að sitja með hauspoka í tímunum. Það sem bjargar þessu er að mánudagar enda á samtímatónlist og Max og föstudagar enda á tónsmíðatíma, svo ég fer yfirleitt brosandi heim. Þriðjudagar og fimmtudagar eru skemmtilegir dagar. Á þriðjudögum er míkrótónalítet, stillingar og alls konar svoleiðis dót og á fimmtudögum er nótnaskrift hjá kennara sem er bókasafn. Hann á allar mögulegar bækur og partitúra og er búin að dunda sér við að skanna það allt inn. Þannig að maður mætir í tíma með USB lykil og hann gefur manni nokkrar bækur í hverjum tíma.

En nú er aftur komin rigning. Kaffið búið úr bollanum og tími til að fara á fætur.

Auf Wiedersehen,

Read More

Nýtt upphaf

 

Þá er ég enn og aftur lent í Hamborg. Við tókum afmælisdag einkasysturinnar í ferðalagið sem var í þetta skiptið með millilendingu í Kaupmannahöfn. Sólin tók á móti okkur, skein á Davíð allan tímann sem hann var hérna og hitaði loftið upp í 20-25 selsíusgráður en fór í felur fljótlega eftir að hann fór heim.

Þýskaland bauð mig velkomna með eðalþýskri skriffinsku og ég fékk að missa vitið í leit að leyfi nr. 8-38 eins og Ástríkur forðum. Nú á ég bara eftir að afgreiða íslensku skriffinskuna og hlýt að enda einhvern vegin hálflögleg í landinu.

Eftir langa mæðu fann ég íbúð á 10. hæð í 13 hæða háhýsi í 25 mínútna göngufjarlægð frá skólanum. Þegar ég hafði fundið hana var mér reyndar bent á að þetta hefði alls ekki verið löng mæða miðað við hvað flestir þurfa að leita lengi að húsnæði á viðráðanlegu verði miðsvæðis í Hamborg. En héðan er alla vega ágætis útsýni af svölunum og ég er búin að prófa stigana einu sinni niður í móti. Ef ég tími ekki að splæsa í yoga- eða líkamsræktarkort verður tekin ein ferð daglega niður og upp og svo djúpslökun í kjölfarið. Reyndar er hægt að spila hnit uppi á þaki. Svo er skólinn niðri við Alster, sem er með rómantískari skokksvæðum sem hægt er að hugsa sér, auk þess sem hann er útbúinn eðal sturtum. Þar með eru komin tvö útsmogin sparnaðarráð. Stunda líkamsrækt heima og fara í sturtu í skólanum. Ég fékk alveg smá tilfelli þegar ég sá hvað rafmagn og hiti kostar á mánuði hér. Maður er náttúrulega fordekraður á Íslandi að geta hangið í sturtu tímunum saman og gleymt að slökkva ljós fyrir skítogekkineitt. Íbúðin er annars fín. Nágranninn við hliðina hefur sjónvarpið hátt stillt og nágranninn fyrir neðan reykir eins og nokkrir strompar. Reykurinn hefur lag á að komast upp á svalirnar mínar og inn í íbúðina þegar hann reykir á svölunum og upp um eldhúsvaskinn þegar hann reykir í eldhúsinu. Sú sem bjó hérna á undan mér var reyndar búin að gera einhverjar einangrunartilraunir, en reykur finnur sér alltaf leið. Gamla húsráðið til að eyða lykt af tóbaksreyk er að setja edik í skál og láta hana standa í smá stund. Það svínvirkar, en þegar reykurinn er viðvarandi vandamál þarf edikskálin að standa að staðaldri úti á bekk. En skárri er ediklykt en reykingalykt.

Ég hef nú lifað grasekkjulífi í 11 daga. Með hjálp góðra vina auk rjómans og ostsins hef ég trú á að ég haldi þetta út. Agnes, Einar og Völundur eru handan við hornið. Gömlu Hamborgarvinirnir mínir eru flestir á sínum stað og í skólanum erum við samtals þrír Íslendingar sem standa saman í blíðu og stríðu. Heitum Steinunn, Steinunn og Þórunn.

Eftir 33 daga kemur Davíð í heimsókn.

 

Í flísnáttfötum og undurfögru evrópsku hausti kveð ég að sinni, en þó ekki jafn löngu sinni og hingað til. Einveran hefur alltaf verið mér innblástur á blogginu.

Read More

Ég hringdi í Vodafone um daginn og vildi breyta samningnum mínum. Hann hljóðar upp á ljósleiðara, síma, net, nokkrar furðulegar sjónvarpsstöðvar sem við horfum aldrei á og áskrift að Gagnaveitunni. Ég ákvað í ljósi þeirrar staðreyndar að segja upp áskrift að Gagnaveitunni og gera sjónvarpslausan viðskiptasamning við Vodafone. Svarið sem ég fékk var að ef ég geri það, þá verður netið og síminn dýrari, nettengingin hægari og sparnaðurinn enginn þegar upp er staðið. Ég fékk uppgefnar tölur og reiknisdæmið var bara svona.
Þetta er hagfræði sem ég skil ekki. Magnafsláttur. Mér finnst eðlilegt að þurfa að borga meira fyrir að kaupa meira. Í þau fáu skipti á ári sem ég panta flatböku hvái ég alltaf í símann þegar ég fæ spurninguna: Má bjóða þér tvo lítra af gosi og brauðstangir eða aðra pizzu sömu stærðar til að gera þetta ódýrara?
Hvað á þetta að þýða? Áttu svona mikið af gosi og brauðstöngum að þú ert reiðubúin að borga með því ef einhver vill gerast svo góðhjartaður að þiggja það af þér? Viltu ekki frekar fara með það niður á Austurvöll og gefa fátækum og leyfa mér að borga fullt verð fyrir flatbökuna mína? Græðir þú þá ekki meira hvort sem er? Af hverju vill skyndibitastaður gefa mér meiri skyndibita til að gera skyndibitann minn ódýrari?

Read More

Róbert Spanó skrifar örstutta grein í Fréttablaðið í dag um að óheppilegt sé að löggjafinn skipi nefnd til að rannsaka hvort tilefni séu til endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Slíkt vegi að þrígreiningu ríkisvaldsins.

Þrennt vekur athygli mína í þessari grein. Hann segir nokkrum sinnum í greininni „í réttarríki eins og okkar“. Í réttarríki eins og okkar eiga unglingar það á hættu að vera handteknir fyrir ávísanamisferli og í leiðinni sakaðir um að hafa myrt tvo menn sem höfðu horfið með hálfs árs millibili. Frásagnir þeirra mynda engan vegin heila brú og það eitt gefur ástæðu til þess að fara ofan í saumana á því hvernig staðið hefur verið að yfirheyrslum. Ég nenni ekki að tíunda málsatvikin frekar, Leirfinnshneykslið og allar þessar fáránlegu sakargiftir, þessi saga hefur verið endursögð milljón sinnum, margir löglærðir menn hafa lýst þeirri skoðun sinni að ekkert tilefni hafi verið til sakfellingar, því einmitt í „réttarríki eins og okkar“ viljum við ekki að menn séu sakfelldir án þess að sekt sé sönnuð. Við viljum ekki að grundvelli fyrir handtöku sé breytt fyrir geðþóttaákvörðun lögreglumanna. En Róbert tiltekur að „löggjafinn“ geti ekki sett nefndina á laggirnar til þess að skoða „dóm Hæstaréttar“.

Þá er sjálfsagt að spyrja á móti, hvaða önnur úrræði standa opin? Framkvæmdavaldið, getur það sett nefnd á laggirnar til að rannsaka starfshætti lögreglu gagnvart sakborningum? Rannsaka hvort mannréttindi hafi verið brotin á sakborningum eða jafnvel ofbeldisbrot framin? Hvort misneytingu hafi verið beytt til að þvinga fram játningar? Væri hægt að höfða sakamál eða skaðabótamál á hendur ríkinu svo brotlegir verði látnir sæta ábyrgð? Með því væri horfið frá hugmyndum um endurupptöku og nýtt mál höfðað.

Sævar Ciesielski barðist allan tímann fyrir endurupptöku, svo sem skiljanlegt er. Verði nýtt mál höfðað, hnekkir það ekki sakfellingu eða dóm Hæstaréttar, sem er afar miður. En með því yrði mögulega viðurkennt að valdhafar hafi brotið á sakborningum og þeir mögulega látnir sæta ábyrgð.

Að lokum er það svo sjálfstæði Hæstaréttar sem Róbert og öðrum löglærðum verður tíðrætt um. Ríkisvald sem er skipað af öðru pólitísku valdi getur ekki orðið sjálfstætt. Hæstarétt skipa hægri sinnaðir karlmenn. Ef maður á það ekki á hættu að missa vinnuna eftir að hafa framið embættisglöp, hvernig á honum þá að vera treystandi til að taka ekki geðþóttaákvarðanir? Ef enginn möguleiki er á endurupptöku mála, hvernig verður öryggi borgaranna gagnvart yfirgangi ríkisvaldsins tryggt?

 

Nokkur orð um hræsni. Hræsni þýðir samkvæmt orðabók smjaður, uppgerð eða látalæti. Þeim sem hafa risið upp á afturfæturna eftir fráfall Sævars Ciesielskis hefur verið legið á hálsi að hræsna, oftast á þeirri forsendu að gera mann að hetju af því hann deyr. Það var mikið rætt um þetta mál í kringum mig allt frá því ég var barn. Kannski af því afi var lögfræðingur, kannski af því Sævar var ættaður að austan, kannski af því frændi eða frænka þekkti þennan sem þekkti sakborning, kannski þetta, kannski hitt. Ég heyrði aldrei annað en hneykslisraddir um þetta mál, sakborningum í hag. In dubio pro reo judicandum est, lærði ég svo síðar í lagadeildinni. Allur vafi skal skýrður sakborningi í hag. Meginregla sem dómarar í Hæstarétti 1978 virðast hafa gleymt.

Þetta mál var og er allt einn allsherjar vafi. Allir sem ég heyrði tala um þetta mál efuðust um sekt allra sakborninga og allir höfðu með þeim mikla samúð. Ríkisvaldið framdi morð. Dómsmorð, sálarmorð og mannorðsmorð. Það framdi auk þess miklu fleiri morð en það bar upp á sakborningana, sex að tölu. Það framdi sex morð. Enginn vill eiga það á hættu að vera sakfelldur þegar litlar sem engar líkur eru á því að nokkur glæpur hafi verið framinn.

Ég vonaði alltaf að málið yrði tekið upp og miðað við það sem ég hef haft í eyrunum frá barnæsku, þá held ég að þorri þjóðarinnar hafi vonað það. Ef einhver vill kalla það hræsni, m.ö.o. smjaður, uppgerð eða látalæti að styðja þessa baráttu, þá má sá hinn sami gera það.

En meðan ríkisvaldinu hefur einu sinni tekist að troða svo á borgurum eins og gert var í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu er ekkert því til fyrirstöðu að það geti gerst aftur. Á meðan engin leið er til endurupptöku erum við gersamlega óvarin gagnvart ægivaldi hins sjálfstæða Hæstaréttar.

Hæstiréttur hefur sjálfdæmi um hvaða mannorðum hann tekur að sér að halda flekklausum. Við skoðun Guðmundar- og Geirfinnsmálsins koma margir þekktir embættismenn við sögu. Virtir menn eiga hlut að máli sem ótækt er fyrir núsitjandi dómara að saka um mistök. Með fullri virðingu fyrir þessu eflaust ágæta fólki, þá er mjög stækur meðvirknifnykur af Hæstarétti, eins og öllum öðrum stofnunum samfélagsins sem eiga að heita sjálfstæðar. Pabbi vinar þeirra hefur eflaust líka verið lögreglumaður.

Getur einhver gefið mér þó ekki væri nema eina ástæðu til að treysta Hæstaréttardómurum í svona pínulitlu og meðvirku samfélagi?

Read More

Það er vandlifað. Í mér blundar hippi. Hann vill lifa á blómunum í garðinum og faðma jörðina. Hann svíður í hvert skipti sem hann fer út með ruslið og sér allan úrganginn sem þar hefur safnast. Hann langar ekki til að dæla eitri í sjálfan sig lengur, bara borða hollt og heimatilbúið. Hann svíður undan öllu fjöldaframleiddu og óumhverfisvænu.

Svo kemur að því að framkvæma. Hann býr í blokk, andar að sér menguðu lofti en reynir eftir megni að draga sem mest úr eigin neyslu og beina svo þeirri neyslu sem eftir er á skynsamlegar brautir. En það er fjandi flókið mál.

Hvað er hollt og hvað er óhollt?

Ég veit það ekki. Hollustuspeki er samansafn af upplýsingum sem eru í innbyrðis mótsögn. Sumir segja þetta, aðrir segja hitt. Fita er ekki bara fita, hún er mjúk, hörð, mettuð, ómettuð, blablabla, sykur er baneitraður, hvítur og dökkur og hrár og klístraður, hann má nálgast í ávöxtum, hunangi sírópi, blablabla, mjólk er baneitruð, hveiti er baneitrað, glútein er baneitrað=bygg, hveiti, kartöflur, haframjöl er líka baneitrað, koffín er baneitrað, fiskur er allur mengaður og fullur af þungmálmum og kjöt sömuleiðis… og sumir segja að maður eigi bara að borða hrátt og bara úr jurtaríkinu.

Í ofan á lag veit maður ekkert hvað maður á að innbyrða af bætiefnum til að halda vítamín- og steinefnamagni í lagi. Á maður að taka fjölvítamín eða eina töflu af hverju? A, B, C, D, E, kalk, járn og magnesíum? Er ég þá ekki samt að gleyma einhverju???

Ég hélt á tímabili að ég væri með fjölþætt fæðuóþol og ólæknandi meltingartruflanir, en það reyndist svo aðeins vera ofnæmi fyrir etanóli. Eftir að hætta neyslu þess hef ég ekki fundið fyrir innyflunum í mér, gæti líklega étið riðgaða nagla án þess að verða meint af.

En ég fékk lífrænt kast í gær, einu sinni sem oftar. Fór í heilsubúð og skoðaði í hillurnar til að byrja með. Þar mátti finna glúteinlaust spaghettí á tæpar 900 krónur, um 250 grömm í pakkanum. Glúteinlausar lasagna plötur á yfir 1000 krónur pakkann, hæfilegt magn í eina lögun miðað við mitt heimili sem telur þrjá fullorðna. Ég óskaði þess að framleiðandinn fengi allan ágóðan og hvergi leyndist milliliður, en hvernig á maður svo sem að vita það?? Endaði svo á því að kaupa glúteinlaust mjöl með það fyrir augum að baka úr því sjálf. Fyrir 500 grömm af mjöli greiddi ég um 800 krónur. Keypti svo lífræna mjólk í jógúrtgerðina mína til að eitra nú aðeins fyrir sjálfri mér og heimilisfólkinu með mjólk og hunangskrukku á um 1000 krónur.

Ég held að heilsubúðin sem ég fór í sé ekki dýr meðal jafningja. En eftir búðarferðir sem þessar sækja jafnan á mig áleitnar spurningar. Hvað er eðlilegt verðlag? Það er næstum því hægt að ganga að því sem vísu að eitthvað er bogið við að geta keypt sér tilbúna vöru á lægra verði en sem nemur hráefniskostnaði. Einhver er snuðaður einhvers staðar í ferlinu. Ef ekki sá sem ræktar kornið (sem við getum hér nefnt litlu gulu hænuna), þá neytandinn. Afar hæpið er að framleiðandinn eða söluaðilinn snuði sjálfa sig.

Ég hef nokkrum sinnum lent í því að kaupa drasl í nafni sparnaðar. Einu sinni voru það t.d. stígvél sem ég hafði fengið á 2000 krónur. Ég hafði átt þau í mánuð þegar ég steig á stein á gangstétt (ekki grjót, bara svona venjulegan malarstein eins og oft leynast á gangstéttum) sem gekk upp í sólann og sat þar fastur. Ég fór með stígvélin til skósmiðs sem sagði að það væri lítið hægt að eiga við þetta og bætti kurteisislega við að þetta væri greinilega engin eðalframleiðsla. Ég fór í fússi inn í fína skóbúð, keypti mér stígvél á 10.000 kall sem ég geng enn í og hafa lítið látið á sjá. Fússið rjátlaðist líka fljótt af mér, því strax að sex mánuðum liðnum höfðu þessi stígvél kostað mig minna á mánuði en 2000 króna stígvélin. Ég held að þau séu sex ára á þessu ári.

Þá erum við aftur komin í heilsubúðina. Þegar maður kaupir sér mat í “venjulegum” búðum, er maður þá að kaupa sér drasl í nafni sparnaðar? (Þá er ég ekki að tala um unna kjötvöru vs. glúteinlaust spaghettí, heldur t.d. bara bókhveiti vs. bókhveiti.) Er verðlagið á heilsuvörunum hið eðlilega verðlag eða er verið að plata ofan í mann hinn útópíska lífselexír á okurverði?

En þá er komið að því að hætta að hugsa og hverfa aftur til hins daglega lífs. Í mínu tilviki þýðir það eins óeitrað hráefni og veskið og samviskan mín leyfir hverju sinni, en með lífrænu ívafi. Brauðið úr glúteinlausa mjölinu og heimatilbúnu jógúrtinni borðuðum við t.d. í hádeginu í dag og stóðum á blístri eftir sitthvorar þrjár brauðsneiðarnar, mjög litlar, þetta lyfti sér engin ósköp. Það er sem sagt þétt í sér og með hrísgrjónabragði, enda hrísmjöl meginuppistaðan í mjölinu. Ágætt brauð og saðsamt með eindæmum, ein brauðsneið ætti að halda manni söddum í heilan dag. Þar er þó alla vega vísir að sparnaði, dýrt mjöl, ódýr jógúrt og skammtarnir sem þarf til að seðja eru örsmáir.

Read More

Sambýlismaðurinn svaraði ekki fyrsta áfanga ritdeilunnar, svo ég hlýt að hafa unnið.

Fyrir mér liggur annars að leysa nokkur vandamál sem öll ættu það líklega sameiginlegt að lenda í lúxusflokki ef vandamál fólks væru almennt flokkuð.

Það fyrsta lýtur að því að það er allt að gerast í einu. Tónleikar á hverju kvöldi meðan ég á með réttu að vera heima og smíða fyrirlestur um verkin mín á þýðverzku. Það gengur upp og ofan því það er sama hvað ég kaupi mér snyrtilegar skissubækur, ég ríf þær alltaf í sundur í vinnuferlinu, sannfærð um að ég muni aldrei gleyma hvað ég var að hugsa á meðan ég skrifaði verkið auk þess sem það væri svo lógískt og auðskilið að það þarfnaðist hvort eð er engrar útskýringar við. Það sér hver sem vill í gegnum allt sem ég geri. Þetta stenst hins vegar ekki alveg skoðun, vegna þess að ég hef eytt heilli viku í að reyna að muna hvað býr að baki verkunum sem ég á að tala um og það hefur hreint ekki gengið greiðlega fyrir sig. Einu rituðu heimildirnar sem ég finn eru samhengislítil rifrildi úr gormabókum. Mér er skapi næst að pakka þeim saman og segja bara: Svona geri ég hlutina… án þess þó að ætla það.

Á meðan ég er að hugsa um inntökupróf í Þýskalandi sem getur haft annað tveggja í för með sér, já (sem mun útheimta valkvíða) eða nei, keppist Bretinn við að innheimta staðfestingar um hvort boð um skólavist verði þegin.

Þriðja vandamálið er svo bévítans avíófóbían. Vandamál sem ætti í besta falli að hrjá fólk sem á börn, en ég hef enga afsökun. Afköst dagsins felast í meginatriðum í að fræðast um avíófóbíu.

Af þessu sést fátt annað en að líf mitt er fádæma auðvelt.

Read More